Hvað er sjálfs-skaði?

Að skaða sjálfan sig eða vera í nánu sambandi við einhvern sem skaðar sjálfan sig getur verið erfitt. Fólk upplifir margar og ólíkar tilfinningar gagnvart sjálfsskaða, meðal annars ótta, reiði, hjálparleysi og áhyggjur.

Sjálfsskaði er algengt vandamál meðal ungs fólks. Á Íslandi búa um 50.000 manns á aldrinum 14-24 ára. Rannsóknir hafa sýnt fram á að um 10% ungmenna hafa skaðað sig eða reynt sjálfsvíg og enn fleiri íhugað það. Þetta þýðir að um 5.000 ungmenni á Íslandi eru að skaða sig eða hafa skaðað sig eða reynt sjálfsvíg. Fullorðnir einstaklingar sem hafa skaðað sig eru 100 sinnum líklegri en aðrir til þess að fremja sjálfsvíg.

Algengustu tegundir sjálfsskaða eru að skera sig, að taka inn of stóra skammta af lyfjum eða eitur. Einnig, en í minna mæli, að lemja höfði í hluti, brenna sig, kyrkja sig og láta sig falla úr mikilli hæð. Ofskammtar lyfja og eitranir eru þær tegundir sjálfsskaða sem líklegastar eru til þess að krefjast læknisþjónustu en algengasta tegund sjálfsskaða meðal ungs fólks er að skera sig.

Ólíkar ástæður búa að baki sjálfsskaða en algengt er að þær tengist kvíða, þunglyndi og reiði. Sjálfsskaði þýðir ekki endilega að fólk vilji fremja sjálfsvíg, vilji kalla á athygli eða stjórna fólki eða aðstæðum.

Algengt er að ungmenni skaði sig til þess að takast á við tilfinningar og aðstæður sem þau telja sig ekki ráða við. Sumir vita ekki hvernig þeir eiga að koma þessari vanlíðan í orð og sjálfsskaði er eina leiðin sem þeir þekkja til þess að sýna öðrum hversu illa þeim líður. Til þess að einhver grípi til þess ráðs að skera sig eða brenna þá þarf vanlíðanin að vera mikil.

Af hverju skaðar fólk sig?

Margar og ólíkar ástæður eru fyrir sjálfsskaða, meðal þeirra eru:

UPPNÁM, REIÐI EÐA HRÆÐSLA og eina leiðin til þess að stoppa þessar tilfinningar virðist vera að skaða sig

YFIRÞYRMANDI TILFINNING sem vex innra með þér og sjálfsskaði virðist vera eina leiðin til að hleypa henni út, eða stoppa hana með því að finna líkamlegan sársauka og dreifa þar með huganum frá innri sársauka

EINMANALEIKI OG EINANGRUN frá öllum og sjálfsskaði virðist vera eina leiðin til þess að framkalla tilfinningu um að þú sért ,,raunveruleg/ur” eða ,,tengd/ur við raunveruleikann”

AÐ LÍÐA eins og þú hafir ekki stjórn á neinu og sjálfsskaði sé eina leiðin til þess að hafa einhverja stjórn

AÐ LÍÐA eins og þú berir ábyrgð á öllu og öllum

AÐ VERA DOFIN og eina leiðin til þess að finna eitthvað virðist vera að finna sársauka

AÐ GERA VANLÍÐANINA SÝNILEGA og þegar hún er sýnileg, getur verið auðveldara að skilja hana

AÐ LÍÐA eins og öðrum sé bara annt um þig þegar eitthvað slæmt gerist

AÐ LÍÐA eins og allt sé vonlaust

Leið til þess að REFSA sjálfum sér eða öðrum

AÐ VERA ÓÁNÆGÐ/UR með sjálfan sig og

AÐ LÍÐA eins og þú hafir engan til að tala við

Sumir sem skaða sig hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi eða glíma við kvíða. Aðrir hafa orðið fyrir kynferðislegu eða andlegu ofbeldi, misst einhvern nákominn eða verið vanræktir í æsku. Þetta getur valdið mikilli streitu og sársauka í lífi fólks. Stundum leiðir þessi reynsla til þess að fólk reynir að stöðva sársaukann með því að skaða sig. Því fer þó fjarri að allir sem skaða sig hafi orðið fyrir ofbeldi, vanrækslu eða upplifað missi.

Fólk sem skaðar sig á oft í erfiðleikum með að takast á við og tala um tilfinningar sínar. Tilfinningarnar geta þá undið upp á sig og orðið því ofviða. Sjálfsskaði virðist þá oft vera eina leiðin til þess að draga úr þessum tilfinningum eða upplifa einhverja aðra tilfinningu.

Ungmenni sem skaða sig eru oft óánægð með sjálf sig eða líkama sinn. Þau eiga oft í erfiðleikum með sambönd og samskipti, eru ófær um að tjá sig um hvaða tilfinningar eru að hrærast innra með þeim eða eru þunglynd, kvíðin eða stressuð. Það er mikilvægt að skilja að sama hvaða ástæða er fyrir því að þú skaðar þig, þá eru til aðrar og betri leiðir til þess að takast á við þessar tilfinningar.

Fólk skaðar sig vegna þess að það er eina leiðin sem það þekkir til þess að takast á við tilfinningar sínar.

Af hverju held ég áfram að skaða mig?

Sumir upplifa að sjálfsskaðinn dragi úr sálræna sársaukanum og að það sé eina leiðin.

Þegar eitthvað lætur okkur líða betur, þá er eðlilegt að vilja halda því áfram. Að því leyti getur sjálfsskaði orðið að eins konar FÍKN. Þegar fólki finnst sjálfsskaði létta á vanlíðan sinni þá heldur það áfram að meiða sig.

Það er mjög erfitt að hætta því sem er ávanabindandi. Þegar fólk upplifir létti með því að skaða sig, þá getur það orðið eina aðferðin sem það notar til þess að takast á við vandamál. Það fer síðan að hafa neikvæð á líf þeirra. Það sem er mikilvægt að skilja er að SJÁLFSSKAÐI ER BARA EIN LEIÐ TIL ÞESS AÐ TAKAST Á VIÐ VANLÍÐAN og að það ERU TIL AÐRAR OG BETRI LEIÐIR!

Meðal ástæðna fyrir því að fólk á erfitt með að hætta að skaða sig eru:

ÓVISSA UM HVAÐ ÞAÐ GETUR GERT til þess að takast á við vandamál öðruvísi en með sjálfsskaða.

ÓVISSA UM HVORT FÓLK muni halda áfram að sýna því athygli og umhyggju ef það sér ekki skurði og ör.

ÓVISSA UM HVORT FÓLK muni ennþá vita að þeim líði illa ef engin sjáanleg ummerki eru lengur á líkama þeirra.

AÐ HÆTTA SJÁLFSSKAÐA getur verið eins og að sleppa hendinni af hluta af sjálfum sér ,,Hver verð ég ef ég sker mig ekki?”.

ÁHYGGJUR AF ÞVÍ að tilfinningarnar verði yfirþyrmandi og óviðráðanlegar ef það skaðar sig ekki.

ÁHYGGJUR af því að það verði alltaf dofið.

Hverjar eru afleiðingar sjálfsskaða?

Þú ert ef til vill að skaða þig án þess að hafa upplifað neikvæðar afleiðingar sjálfsskaðans ennþá en hér eru nokkrar afleiðingar sjálfsskaða:

ÞÚ GÆTIR ÓVART EÐA VILJANDI GENGIÐ OF LANGT OG VALDIÐ ALVARLEGUM SKAÐA EÐA TEKIÐ EIGIÐ LÍF.

SKURÐIR GETA ORÐIÐ AÐ ÖRUM

: Fæstir skilja sjálfsskaða og margir koma öðruvísi fram við þig þegar þeir sjá örin. Þetta getur gert þér erfiðara um vik að eignast vini, fá vinnu, eignast kærasta/kærustu eða að vera í bolum eða öðrum léttum fatnaði. Engu að síður er mikilvægt að hafa hugfast að fólk sem dæmir þig bara út frá örunum þekkir þig ekki í raun.

SJÁLFSSKAÐI ER OFT LEYNDARMÁL

: Það getur verið mjög einmanalegt að takast á við vandamál með sjálfsskaða. Að takast á við tilfinningar á þennan hátt þýðir að þú ert eflaust ekki að deila sársaukanum með öðrum eða að fá þann stuðning sem að þú þarft á að halda til að bæta líðan þína.

ÞÚ GÆTIR VERIÐ AÐ FORÐAST VANDAMÁLIN SEM LEIDDU TIL SJÁLFSSKAÐANS

: Að takast á við vandamál á þennan hátt getur komið í veg fyrir að þú sjáir og takist á við raunverulegar orsakir sársaukans.

ÞÚ GÆTIR ÞURFT AÐ LJÚGA

: Þú gætir þurft að ljúga að vinum þínum og fjölskyldu um ör og önnur einkenni. Flestum finnst það erfitt og stressandi. Því er algengt að hugsa ,,ætli þau trúi mér?”, ,,finnst þeim ég skrítin/n?”

ÞÚ GÆTIR FENGIÐ SAMVISKUBIT

: Ungmenni sem skaða sig fá oft samviskubit yfir því. Þau fara að fela örin og rakka sjálf sig niður fyrir að hafa veitt sjálfum sér skaða. Það býr síðan til enn meiri vanlíðan sem leiðir til meiri sjálfsskaða til þess að takast á við þá vanlíðan.

Hvernig get ég hætt að skaða mig?

Sjálfsskaði er tilraun til þess að takast á við innri sársauka. Það er mjög erfitt að hætta að skaða sig án þess að geta gripið til annarra leiða til að deyfa sársaukann. Það er alltaf erfitt að breyta hegðun sinni og það er ákvörðun sem BARA ÞÚ getur tekið. Hér eru nokkrar ólíkar leiðir sem þú getur farið þegar þér finnst eins og að þú þurfir að skaða þig. Þetta er ekki alltaf auðvelt og krefst vinnu og æfingar.

ÁKVEDDU

að þú ætlir að hætta að skaða þig, þessi ákvörðun er fyrsta skrefið.

KOMDU ÞÉR ÚR AÐSTÆÐUNUM

– að koma sér úr aðstæðum þar sem þú hefur aðgengi að hnífum, rakvélarblöðum eða hverju sem þú notar til þess að skaða þig, virkar fyrir suma.

BÍDDU Í 15 MÍNÚTUR

– prófaðu að bíða í 15 mínútur þegar þú ætlar að skaða þig. Ef það virkar, prófaðu þá að bíða í aðrar 15 mínútur o.s.frv.

HAFÐU EITTHVAÐ FYRIR STAFNI

– að halda sér uppteknum getur haldið huganum frá stressinu og vanlíðaninni. Þá er ekki tími til þess að hugsa um að skaða sig. Skipulegðu hvað þú ætlar að gera í frítímanum þínum. Þú gætir, teiknað, hlustað á tónlist, spilað á hljóðfæri, dansað, skrifað, sungið eða gert eitthvað skapandi.

LEIDDU HUGANN AÐ

einhverju öðru en sársaukanum og vanlíðaninni. Þú gætir farið út í göngutúr, farið í langa sturtu, horft á sjónvarpið, lesið, farið í tölvuna, borðað o.s.frv. Allt sem dreifir huganum frá því hvernig þér líður getur komið í veg fyrir að þér líði verr.

BÚÐU TIL LISTA AF VINUM/STUÐNINGSAÐILUM

sem að þú getur talað við eða hringt í þegar þú þarft á því að halda. Þeir sem fara á þennan lista ættu að vera fólk sem skilur aðstæðurnar sem þú ert í og hvað þú ert að ganga í gegnum. Það munu ekki allir eiga heima á þessum lista, margir eiga erfitt með að skilja af hverju einhver skaðar sjálfan sig. Ef vinir þínir eiga erfitt með að sýna þér skilning, þá er gott að hringja í Hjálparsímann (1717), nýta vefspjallið www.1717.is eða tala við fagaðila (sjáðu líka ,,hvert get ég leitað?” hér að neðan).

PRÓFAÐU DJÚPÖNDUN

og slökunaræfingar. Djúpöndun eykur súrefni í líkamanum og hjálpar þér að slaka á. Djúpöndun og slökunaræfingar geta líka verið góð leið til þess að hætta að hugsa um vanlíðanina.

SKRIFAÐU DAGBÓK

– skrifaðu hvernig þér líður og hvað gæti hafa valdið því að þú vildir skaða þig. Þannig getur þú byrjað að sjá hvaða aðstæður eða hugsanir koma af stað sjálfsskaðanum og hvað þú getir gert áður en þú skaðar þig.

BÚÐU TIL LISTA AF ÁSTÆÐUM

fyrir því af hverju þú ætlar að hætta að skaða þig og settu þér raunhæf markmið til þess að hjálpa þér að hætta, t.d. ,,næst þegar mér finnst eins og að ég þurfi að skera mig, þá ætla ég að öskra í koddann í staðinn”.

HAFÐU SAMBAND VIÐ HJÁLPARSÍMANN

ef þú vilt tala við einhvern sem hlustar og skilur þig og/eða ef sjálfsskaðinn verður alvarlegri. Rauði krossinn heldur úti Hjálparsímanum 1717 og netspjallinu www.1717.is en skoðaðu líka ,,hvert get ég leitað? Hér að neðan”.

Ef þú vilt hætta að skaða þig, þá er gott að hafa í huga að það tekst kannski ekki í fyrstu tilraun. Mikilvægast er að þú gefist ekki upp, haldir áfram að reyna að hætta og fáir þann stuðning sem þú þarft til að komast í gegnum þetta.

Af hverju er svona erfitt að tala um þetta?

Að tala við fólk um sjálfsskaða getur verið mjög erfitt. Ungmenni sem skaða sig hafa oft áhyggjur af neikvæðum viðbrögðum fjölskyldu og vina. Dæmi um neikvæð viðbrögð sem þau óttast:

AÐ HLUSTANDINN VERÐI MJÖG ÁHYGGJUFULLUR OG KOMIST Í UPPNÁM

AÐ HLUSTANDINN VITI EKKI HVERNING HANN EIGI AÐ BREGÐAST VIÐ.

AÐ HLUSTANDINN VERÐI REIÐUR AF ÞVÍ AÐ HANN SKILUR ÞETTA EKKI OG FINNIST EINS OG ÞETTA GÆTI VERIÐ HONUM AÐ KENNA

AÐ HLUSTANDINN SEGI ÞÉR AÐ GERA ÞETTA EKKI AFTUR EÐA HÆTTA LÁTA SVONA

AÐ HLUSTANDINN SEGI ÞÉR AÐ HUNDSA ÞETTA OG AÐ ÞETTA HVERFI ÞANNIG

AÐ HLUSTANDINN HALDI AÐ ÞÚ GERIR ÞETTA TIL ÞESS AÐ FÁ ATHYGLI

Hver sem þú heldur að viðbrögðin verði, þá er mjög mikilvægt að segja einhverjum frá sjálfsskaðanum. Að leyna þessu viðheldur sjálfsskaðanum og getur valdið því að þú skaðir þig varanlega.

Hér eru nokkur ráð til þess að fá stuðning frá öðrum:

SÝNDU NÆRGÆTNI gagnvart þeim sem þú segir frá. Sjálfsskaði gæti verið orðinn eðlilegur fyrir þér en mörgum verður mjög brugðið eða verða hræddir.

Reyndu að velja stað Í EINRÚMI þar sem hægt er að tala um sjálfsskaðann á rólegan og yfirvegaðan hátt.

Sjáðu til þess að þú og hin manneskjan hafi TÍMA TIL ÞESS AÐ TALA UM ÞETTA – reyndu að minnast ekki á þetta í fyrsta skipti þegar þú eða hin manneskjan er að fara út úr dyrunum.

Segðu þeim sem þú segir frá HVAÐ ÞÚ ERT AÐ GERA TIL ÞESS AÐ REYNA AÐ HÆTTA AÐ SKAÐA ÞIG.

Það er aldrei auðvelt að segja öðrum frá sjálfsskaðanum. Mundu bara að þú stjórnar því hvernig og hvað þú segir fólki. Mikilvægast er að segja frá.

Hvert get ég leitað?

Mikilvægasta skrefið er að segja einhverjum frá því hvernig þér líður, hvort sem það er vinur, einhver í fjölskyldunni, hjá Hjálparsímanum 1717 eða fagaðili.
Hér eru nokkur gagnleg símanúmer:

Vanlíðan og geðræn vandamál:

 • Hjálparsími Rauða krossins, sími 1717, hægt að hringja hvenær sem er sólarhringsins, einnig hægt að spjalla í gegnum netspjallið, www.1717.is
 • Ráðgjöf Geðhjálpar, sími 570 1700, hægt að fá ráðgjöf í gegnum síma, netfangið gedhjalp@gedhjalp.is eða bóka ókeypis viðtöl hjá ráðgjafa. www.gedhjalp.is
 • Neyðarlínan, sími 112
 • Bráðamóttaka geðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH), sími 543 4050, Bráðamóttakan er opin frá kl. 12 til kl. 19 alla virka daga og frá kl. 13 til kl. 17 á helgidögum. Utan opnunartíma er hægt að leita til bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
 • Geðdeild LSH, sími 543 1000
 • Geðdeild sjúkrahússins á Akureyri, sími 463 0100
 • Barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss (BUGL), sími 543 4300

Einnig er hægt að leita úrræða á höfuðborgarsvæðinu, eins og til Klúbbsins Geysis, Hugarafls og Hlutverkaseturs. Á landsbyggðinni er hægt að leita til geðverndarmiðstöðvarinnar Grófarinnar á Akureyri, Vesturafls á Ísafirði, Ásheima á Egilsstöðum og fleiri sambærilegra aðila. Hægt er að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga t.a.m. í gegnum www.salfelag.is eða www.sal.is

Einnig er hægt að leita til heimilislækna, sálfræðinga, geðlækna og annarra fagaðila. Ef þú ert í skóla þá er hægt að leita til skólasálfræðinga (í grunnskólum og nokkrum menntaskólum) eða til annarra starfsmanna, t.d. námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðinga.

Kynferðisleg misnotkun
Ef þú hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun og býrð á höfuðborgarsvæðinu getur þú leitað þér aðstoðar hjá Stígamótum eða Drekaslóð. Stígamót bjóða líka upp á viðtöl á Patreksfirði og á Egilsstöðum. Á Ísafirði má leita til Sólstafa og á Akureyri til Aflsins.

Vímuefnavandi
Ef þú stríðir við áfengis- eða vímuefnavanda getur þú fengið ráðgjöf hjá SÁÁ. Einnig getur þú leitað til tólf spora samtaka eins og AA og NA samtakanna www.nai.is.
Ef þú ert foreldri unglings í vímuefnaneyslu gæti reynst vel að leita í Foreldrahús www.vimulaus.is.

Sálfræðinga með menntun á sviði áfengis- og vímuefnamála má finna á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands www.sal.is. Hægt er að leita aðstoðar allan sólarhringinn í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og í gegnum netspjallið www.1717.is.

Hvað eru sjálfsvígs-hugsanir?

Sjálfsvígshugsanir geta verið allt frá óljósum hugsunum um að enda líf sitt eða finnast að vinum og fjölskyldu væri betur borgið án manns, yfir í hugsanir um sjálfsvígsaðferðir eða áætlanir.

Ef þú upplifir sjálfsvígshugsanir þá gæti verið að þú fyndir fyrir hræðslu og jafnvel skömm vegna þessara hugsana. En þú ert ekki ein/n! Mjög margir upplifa sjálfsvígshugsanir einhvern tíman á lífsleiðinni. Ef þú glímir við þunglyndi, þá eru sjálfsvígshugsanir vel þekkt einkenni þess. Hafðu líka hugfast að rétt eins og með einkenni annarra sjúkdóma, þá segja þessar hugsanir ekkert um þig sem persónu. Þetta eru eðlilegar hugsanir en engu að síður hugsanir sem þarf að læra að takast á við. Ekki einangra þig með þessum hugsunum af ótta við hvað öðrum muni finnast, það gerir bara illt verra. Segðu frá, komdu Útmeð´a!

Þú ert ekki ein/n!

Margir upplifa sjálfsvígshugsanir einhvern tíma á ævinni. Að hugsa um sjálfsvíg er ekki persónuleikagalli, það þýðir ekki að þú sért endilega með geðröskun, veiklundaður eða á einhvern hátt gallaður. Þetta þýðir bara að þú upplifir meiri vanlíðan en þú ræður við í augnablikinu. Þú upplifir vanlíðanina sem yfirþyrmandi og endalausa. En það eru til lausinir þó þær virðist ekki í sjónmáli í augnablikinu og með tímanum og stuðningi annarra þá getur þú komist í gegnum vandamálin og vanlíðanin og sjálfsvíghugsanirnar munu líða hjá.

Hvernig get ég breytt þessari tilfinningu og hugsunum?

SEGÐU FRÁ

– Það mikilvægasta sem þú getur gert er að segja einhverjum frá því hvernig þér líður og hvað þú ert að hugsa um. Segðu vini, einhverjum í fjölskyldunni, sjálfboðaliða hjá Hjálparsíma Rauða krossins 1717, netspjalli Hjálparsímans www.1717.is eða einhverjum í heilbrigðisþjónustunni frá. Að opna sig og segja frá getur strax hjálpað. Mikilvægast er að vera hreinskilinn um allar sjálfsvígshugsanir. Mjög margir hafa lýst því hversu mikill léttir það var þegar þeir deildu hugsununum og vanlíðaninni með öðrum. Að segja frá minnkar líka einmanaleikann sem oft fylgir sjálfsvígshugsunum.

MYNDAÐU TENGSL VIÐ AÐRA

– Ef þú hefur áhyggjur af því að þú sért að missa tökin eða að þú gætir skaðað þig, segðu þá einhverjum frá því. Vertu í kringum einhvern sem þú treystir. Ef þú býrð einn, fáðu þá vin eða einhvern í fjölskyldunni til að koma og vera hjá þér. Ef þú hefur engan til að tala við eða nærð ekki í neinn, hringdu þá í Hjálparsíma Rauða krossins1717 og notfærðu þér netspjallið www.1717.is og skoðaðu ,,hvert get ég leitað” hér að neðan.

GERÐU HEIMILI ÞITT ÖRUGGT

– Það er mikilvægt að fjarlægja allt sem þú gætir notað til að skaða þig eða taka eigið líf. Þetta á við um pillur, rakvélarblöð, skotvopn o.s.frv. Ef þú getur ekki tryggt að heimili þitt sé öruggt, farðu þá eitthvert þar sem þú upplifir öryggi.

BÚÐU TIL ÖRYGGISÁÆTLUN

– Það er mjög hjálplegt að búa til öryggisáætlun ef þú upplifir hugsanir um að skaða þig. Fáðu einhvern í fjölskyldunni, vin eða fagaðila til þess að hjálpa þér að búa til áætlunina. Geymdu hana svo þar sem þú sérð hana reglulega eða þar sem auðvelt er að ná í hana. Skrifaðu niður það sem þú ætlar að gera til að tryggja öryggi þitt (hér er dæmi um öryggisáætlun). Fylgdu svo áætluninni. Ef þú fylgir áætluninni en finnst það ekki nóg, hringdu þá í Hjálparsíma Rauða krossins (1717) eða notfærðu þér netspjallið www.1717.is, farðu á bráðamóttöku geðsviðsins (Hringbraut) eða hringdu á neyðarlínuna (112).

VERTU LAUSNAMIÐAÐUR

– Það er alltaf gagnlegt að finna fjölbreyttar leiðir til þess að takast á við vandamál. Búðu til lista yfir öll vandamálin sem þú ert að takast á við. Búðu svo til lista yfir allar lausnirnar sem þér dettur í hug að geti komið að gagni til að leysa þessi vandamál. Biddu einhvern sem þú treystir að hjálpa þér við þetta. Byrjaðu svo á að takast á við eitt eða tvö lítil vandamál. Að byrja á því að takast á við einfaldari vandamál getur hjálpað til við að komast yfir mestu vanlíðanina og bægja sjálfsvígshugunum frá. Þá ert þú betur í stakk búinn til þess að takast á við flóknari vandamálin.

HUGSAÐU UM HVAÐ GEFUR LÍFINU GILDI

– Flestir sem hugsa um sjálfsvíg vilja forðast sársaukann sem þeir upplifa en þeir vilja ekki endilega deyja. Þegar þú ert langt niðri er auðvelt að einblína á neikvæðu hlutina í lífinu. Þetta styrkir sjálfsvígshugsanirnar og veldur því að stundum virðist sjálfsvíg vera eini valkosturinn. Byrjaðu á því að hugsa um hvað gefur lífi þínu gildi. Sambönd við vini eða ástvini, gæludýr, trú, markmið og draumar eða skyldur og hlutverk gagnvart öðrum geta til dæmis gefið lífinu gildi og þannig komið í veg fyrir að sjálfsvígshugsanir taki yfirhöndina. Veltu því fyrir þér hvað skiptir þig máli í lífinu, skrifaðu atriðin niður og renndu yfir textann þegar þér líður illa.

RIFJAÐU UPP ÞAÐ SEM HEFUR ÁÐUR HJÁLPAÐ

– Margir hafa áður upplifað sjálfsvígshugsanir. Rifjaðu upp hvað hefur áður hjálpað þér við að bæta líðan þína þegar þú hefur tekist á við svipuð vandamál eða þegar þér hefur áður liðið illa. Til dæmis að tala við vini eða fjölskyldu, treysta því að tíminn lækni öll sár, hringja í Hjálparsímann 1717, nýta vefspjallið (www.1717.is), hitta fagaðila, fara í stuðningshóp, fylgja öryggisáætlun, gera eitthvað sem þú hefur gaman að, forðast að vera ein/n, skrifa í dagbók og/eða að forðast áfengi og eiturlyf.

FÁÐU HJÁLP VIÐ GEÐRÆN VANDAMÁL

– Það er mjög mikilvægt að fá meðferð við þunglyndi, kvíða, áföllum eins og missi, svo og áfengis- og vímuefnavanda. Að hitta heimilislækni er gott en stundum ekki nóg og þarf þá frekari sérfræðiaðstoð, hjá sálfræðingi, geðlækni og/eða öðrum fagaðilum sem hafa þekkingu á geðrænum vanda. Þú getur fengið tilvísun frá heimilislækni til að hitta þessa fagaðila eða haft beint samband við þá. Ef þú ert þegar í meðferð, segðu meðferðaraðilanum þá frá því ef þér finnst að meðferðin sé ekki að virka. Hægt er að fá ókeypis ráðgjöf hjá Geðhjálp í gegnum síma 570 1700, netfangið gedhjalp@gedhjalp.is og viðtöl með stuttum fyrirvara.

BREGSTU VIÐ, ÖFUGT VIÐ LÍÐAN ÞÍNA

– Þegar manni líður illa, sérstaklega þegar maður upplifir sjálfsvígshugsanir getur verið gagnlegt að bregðast við öfugt við líðan manns. Þegar fólk er til að mynda þunglynt sækir það oft í einveru þar sem það telur sig ekki vera fært um samskipti við aðra eða það telur sig vera baggi á öðrum. Að bregðast við með öfugum hætti, til dæmis að hringja í eða fara út og hitta vin, hjálpar oft einstaklingnum að takast á við þunglyndið.

Hvert get ég leitað?

Mikilvægasta skrefið er að segja einhverjum frá því hvernig þér líður, hvort sem það er vinur, einhver í fjölskyldunni, hjá Hjálparsímanum 1717 eða fagaðili.
Hér eru nokkur gagnleg símanúmer:

Vanlíðan og geðræn vandamál:

 • Hjálparsími Rauða krossins, sími 1717, hægt að hringja hvenær sem er sólarhringsins, einnig hægt að spjalla í gegnum netspjallið, www.1717.is
 • Ráðgjöf Geðhjálpar, sími 570 1700, hægt að fá ráðgjöf í gegnum síma, netfangið gedhjalp@gedhjalp.is eða bóka ókeypis viðtöl hjá ráðgjafa. www.gedhjalp.is
 • Neyðarlínan, sími 112
 • Bráðamóttaka geðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH), sími 543 4050, Bráðamóttakan er opin frá kl. 12 til kl. 19 alla virka daga og frá kl. 13 til kl. 17 á helgidögum. Utan opnunartíma er hægt að leita til bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
 • Geðdeild LSH, sími 543 1000
 • Geðdeild sjúkrahússins á Akureyri, sími 463 0100
 • Barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss (BUGL), sími 543 4300

Einnig er hægt að leita úrræða á höfuðborgarsvæðinu, eins og til Klúbbsins Geysis, Hugarafls og Hlutverkaseturs. Á landsbyggðinni er hægt að leita til geðverndarmiðstöðvarinnar Grófarinnar á Akureyri, Vesturafls á Ísafirði, Ásheima á Egilsstöðum og fleiri sambærilegra aðila. Hægt er að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga t.a.m. í gegnum www.salfelag.is eða www.sal.is

Einnig er hægt að leita til heimilislækna, sálfræðinga, geðlækna og annarra fagaðila. Ef þú ert í skóla þá er hægt að leita til skólasálfræðinga (í grunnskólum og nokkrum menntaskólum) eða til annarra starfsmanna, t.d. námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðinga.

Kynferðisleg misnotkun
Ef þú hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun og býrð á höfuðborgarsvæðinu getur þú leitað þér aðstoðar hjá Stígamótum eða Drekaslóð. Stígamót bjóða líka upp á viðtöl á Patreksfirði og á Egilsstöðum. Á Ísafirði má leita til Sólstafa og á Akureyri til Aflsins.

Vímuefnavandi
Ef þú stríðir við áfengis- eða vímuefnavanda getur þú fengið ráðgjöf hjá SÁÁ. Einnig getur þú leitað til tólf spora samtaka eins og AA og NA samtakanna www.nai.is.
Ef þú ert foreldri unglings í vímuefnaneyslu gæti reynst vel að leita í Foreldrahús www.vimulaus.is.

Sálfræðinga með menntun á sviði áfengis- og vímuefnamála má finna á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands www.sal.is. Hægt er að leita aðstoðar allan sólarhringinn í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og í gegnum netspjallið www.1717.is.

SjálfsskaðiSjálfsvíg
1717 ókeypis + trúnaður + alltaf opið