Hvað er sjálfs-skaði?

Að skaða sjálfan sig eða vera í nánu sambandi við einhvern sem skaðar sjálfan sig getur verið erfitt. Fólk upplifir margar og ólíkar tilfinningar gagnvart sjálfsskaða, meðal annars ótta, reiði, hjálparleysi og áhyggjur.

Sjálfsskaði er algengt vandamál meðal ungs fólks. Á Íslandi búa um 50.000 manns á aldrinum 14-24 ára. Rannsóknir hafa sýnt fram á að um 10% ungmenna hafa skaðað sig eða reynt sjálfsvíg og enn fleiri íhugað það. Þetta þýðir að um 5.000 ungmenni á Íslandi eru að skaða sig eða hafa skaðað sig eða reynt sjálfsvíg. Fullorðnir einstaklingar sem hafa skaðað sig eru 100 sinnum líklegri en aðrir til þess að fremja sjálfsvíg.

Algengustu tegundir sjálfsskaða eru að skera sig, að taka inn of stóra skammta af lyfjum eða eitur. Einnig, en í minna mæli, að lemja höfði í hluti, brenna sig, kyrkja sig og láta sig falla úr mikilli hæð. Ofskammtar lyfja og eitranir eru þær tegundir sjálfsskaða sem líklegastar eru til þess að krefjast læknisþjónustu en algengasta tegund sjálfsskaða meðal ungs fólks er að skera sig.

Ólíkar ástæður búa að baki sjálfsskaða en algengt er að þær tengist kvíða, þunglyndi og reiði. Sjálfsskaði þýðir ekki endilega að fólk vilji fremja sjálfsvíg, vilji kalla á athygli eða stjórna fólki eða aðstæðum.

Algengt er að ungmenni skaði sig til þess að takast á við tilfinningar og aðstæður sem þau telja sig ekki ráða við. Sumir vita ekki hvernig þeir eiga að koma þessari vanlíðan í orð og sjálfsskaði er eina leiðin sem þeir þekkja til þess að sýna öðrum hversu illa þeim líður. Til þess að einhver grípi til þess ráðs að skera sig eða brenna þá þarf vanlíðanin að vera mikil.

Af hverju skaðar fólk sig?

Margar og ólíkar ástæður eru fyrir sjálfsskaða, meðal þeirra eru:

UPPNÁM, REIÐI EÐA HRÆÐSLA og eina leiðin til þess að stoppa þessar tilfinningar virðist vera að skaða sig

YFIRÞYRMANDI TILFINNING sem vex innra með þér og sjálfsskaði virðist vera eina leiðin til að hleypa henni út, eða stoppa hana með því að finna líkamlegan sársauka og dreifa þar með huganum frá innri sársauka

EINMANALEIKI OG EINANGRUN frá öllum og sjálfsskaði virðist vera eina leiðin til þess að framkalla tilfinningu um að þú sért ,,raunveruleg/ur” eða ,,tengd/ur við raunveruleikann”

AÐ LÍÐA eins og þú hafir ekki stjórn á neinu og sjálfsskaði sé eina leiðin til þess að hafa einhverja stjórn

AÐ LÍÐA eins og þú berir ábyrgð á öllu og öllum

AÐ VERA DOFIN og eina leiðin til þess að finna eitthvað virðist vera að finna sársauka

AÐ GERA VANLÍÐANINA SÝNILEGA og þegar hún er sýnileg, getur verið auðveldara að skilja hana

AÐ LÍÐA eins og öðrum sé bara annt um þig þegar eitthvað slæmt gerist

AÐ LÍÐA eins og allt sé vonlaust

Leið til þess að REFSA sjálfum sér eða öðrum

AÐ VERA ÓÁNÆGÐ/UR með sjálfan sig og

AÐ LÍÐA eins og þú hafir engan til að tala við

Sumir sem skaða sig hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi eða glíma við kvíða. Aðrir hafa orðið fyrir kynferðislegu eða andlegu ofbeldi, misst einhvern nákominn eða verið vanræktir í æsku. Þetta getur valdið mikilli streitu og sársauka í lífi fólks. Stundum leiðir þessi reynsla til þess að fólk reynir að stöðva sársaukann með því að skaða sig. Því fer þó fjarri að allir sem skaða sig hafi orðið fyrir ofbeldi, vanrækslu eða upplifað missi.

Fólk sem skaðar sig á oft í erfiðleikum með að takast á við og tala um tilfinningar sínar. Tilfinningarnar geta þá undið upp á sig og orðið því ofviða. Sjálfsskaði virðist þá oft vera eina leiðin til þess að draga úr þessum tilfinningum eða upplifa einhverja aðra tilfinningu.

Ungmenni sem skaða sig eru oft óánægð með sjálf sig eða líkama sinn. Þau eiga oft í erfiðleikum með sambönd og samskipti, eru ófær um að tjá sig um hvaða tilfinningar eru að hrærast innra með þeim eða eru þunglynd, kvíðin eða stressuð. Það er mikilvægt að skilja að sama hvaða ástæða er fyrir því að þú skaðar þig, þá eru til aðrar og betri leiðir til þess að takast á við þessar tilfinningar.

Fólk skaðar sig vegna þess að það er eina leiðin sem það þekkir til þess að takast á við tilfinningar sínar.

Af hverju held ég áfram að skaða mig?

Sumir upplifa að sjálfsskaðinn dragi úr sálræna sársaukanum og að það sé eina leiðin.

Þegar eitthvað lætur okkur líða betur, þá er eðlilegt að vilja halda því áfram. Að því leyti getur sjálfsskaði orðið að eins konar FÍKN. Þegar fólki finnst sjálfsskaði létta á vanlíðan sinni þá heldur það áfram að meiða sig.

Það er mjög erfitt að hætta því sem er ávanabindandi. Þegar fólk upplifir létti með því að skaða sig, þá getur það orðið eina aðferðin sem það notar til þess að takast á við vandamál. Það fer síðan að hafa neikvæð á líf þeirra. Það sem er mikilvægt að skilja er að SJÁLFSSKAÐI ER BARA EIN LEIÐ TIL ÞESS AÐ TAKAST Á VIÐ VANLÍÐAN og að það ERU TIL AÐRAR OG BETRI LEIÐIR!

Meðal ástæðna fyrir því að fólk á erfitt með að hætta að skaða sig eru:

ÓVISSA UM HVAÐ ÞAÐ GETUR GERT til þess að takast á við vandamál öðruvísi en með sjálfsskaða.

ÓVISSA UM HVORT FÓLK muni halda áfram að sýna því athygli og umhyggju ef það sér ekki skurði og ör.

ÓVISSA UM HVORT FÓLK muni ennþá vita að þeim líði illa ef engin sjáanleg ummerki eru lengur á líkama þeirra.

AÐ HÆTTA SJÁLFSSKAÐA getur verið eins og að sleppa hendinni af hluta af sjálfum sér ,,Hver verð ég ef ég sker mig ekki?”.

ÁHYGGJUR AF ÞVÍ að tilfinningarnar verði yfirþyrmandi og óviðráðanlegar ef það skaðar sig ekki.

ÁHYGGJUR af því að það verði alltaf dofið.

Hvert get ég leitað?

Mikilvægasta skrefið er að segja einhverjum frá því hvernig þér líður, hvort sem það er vinur, einhver í fjölskyldunni, hjá Hjálparsímanum 1717 eða fagaðili.
Hér eru nokkur gagnleg símanúmer:

Vanlíðan og geðræn vandamál:

  • Hjálparsími Rauða krossins, sími 1717, hægt að hringja hvenær sem er sólarhringsins, einnig hægt að spjalla í gegnum netspjallið, www.1717.is
  • Ráðgjöf Geðhjálpar, sími 570 1700, hægt að fá ráðgjöf í gegnum síma, netfangið gedhjalp@gedhjalp.is eða bóka ókeypis viðtöl hjá ráðgjafa. www.gedhjalp.is
  • Neyðarlínan, sími 112
  • Bráðamóttaka geðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH), sími 543 4050, Bráðamóttakan er opin frá kl. 12 til kl. 19 alla virka daga og frá kl. 13 til kl. 17 á helgidögum. Utan opnunartíma er hægt að leita til bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
  • Geðdeild LSH, sími 543 1000
  • Geðdeild sjúkrahússins á Akureyri, sími 463 0100
  • Barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss (BUGL), sími 543 4300

Einnig er hægt að leita úrræða á höfuðborgarsvæðinu, eins og til Klúbbsins Geysis, Hugarafls og Hlutverkaseturs. Á landsbyggðinni er hægt að leita til geðverndarmiðstöðvarinnar Grófarinnar á Akureyri, Vesturafls á Ísafirði, Ásheima á Egilsstöðum og fleiri sambærilegra aðila. Hægt er að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga t.a.m. í gegnum www.salfelag.is eða www.sal.is

Einnig er hægt að leita til heimilislækna, sálfræðinga, geðlækna og annarra fagaðila. Ef þú ert í skóla þá er hægt að leita til skólasálfræðinga (í grunnskólum og nokkrum menntaskólum) eða til annarra starfsmanna, t.d. námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðinga.

Kynferðisleg misnotkun
Ef þú hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun og býrð á höfuðborgarsvæðinu getur þú leitað þér aðstoðar hjá Stígamótum eða Drekaslóð. Stígamót bjóða líka upp á viðtöl á Patreksfirði og á Egilsstöðum. Á Ísafirði má leita til Sólstafa og á Akureyri til Aflsins.

Vímuefnavandi
Ef þú stríðir við áfengis- eða vímuefnavanda getur þú fengið ráðgjöf hjá SÁÁ. Einnig getur þú leitað til tólf spora samtaka eins og AA og NA samtakanna www.nai.is.
Ef þú ert foreldri unglings í vímuefnaneyslu gæti reynst vel að leita í Foreldrahús www.vimulaus.is.

Sálfræðinga með menntun á sviði áfengis- og vímuefnamála má finna á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands www.sal.is. Hægt er að leita aðstoðar allan sólarhringinn í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og í gegnum netspjallið www.1717.is.

1717 ókeypis + trúnaður + alltaf opið