Hver eru hættumerkin?

Margir sem skaða sjálfa sig reyna að fela það. Ungmenni sem skaða sig fela einkennin fyrir kennurum, vinum og fjölskyldu. Fullorðnir fela sjálfsskaðann fyrir mökum, vinum og vinnufélögum og í sumum tilvikum börnum sínum. Sumir eiga einn eða tvo nána vini sem vita um sjálfsskaðann en í mörgum tilvikum er aðeins til staðar grunur um að eitthvað sé að eða fjölskyldan og vinirnir hafa jafnvel ekki um hugmynd um sjálfsskaðann.

Það eru auðvitað augljós merki um sjálfsskaða, eins og skurðir, ör, brunasár og ofskammtar sem þarfnast tafarlausra viðbragða en minna áberandi merki geta gefið til kynna að einhver sé að skaða sjálfan sig.

Sálræn merki
 • Miklar breytingar á lundarfari
 • Breytingar á svefn- eða matarvenjum
 • Áhugaleysi á vinum og félagslegum samskiptum
 • Verri samskipti við fjölskyldu og vini
 • Að fela fötin sín eða að þvo eigin föt sérstaklega
 • Áhugaleysi á því sem áður voru uppáhaldshlutir eða –athafnir
 • Vandamál í samböndum
 • Lágt sjálfsmat
 • Að leyna tilfinningum sínum
 • Forðast aðstæður þar sem sést í hendur eða fætur, t.d. sundlaugar
 • Furðulegar afsakanir fyrir meiðslum
 • Miklar breytingar í frammistöðu og samskiptum í skóla, vinnu eða heima
 • Að draga sig í hlé frá daglegu lífi
Líkamleg merki
 • Óútskýrð meiðsli, eins og rispur eða brunasár
 • Óútskýrð endurtekin heilsuvandamál eins og maga- eða höfuðverkir
 • Óviðeigandi fatnaður miðað við aðstæður, t.d. að vera í síðerma peysum og síðum buxum í miklum hita
 • Rífa í hár eða kroppa í fingur eða skinn þegar hann/hún er í uppnámi eða stressuð
 • Fela eldspýtur, töflur, rakvélarblöð eða aðra beitta hluti á óvenjulegum stöðum, eins og bakvið skúffur, undir rúmi eða aftast í skápum
 • Eiturlyfjanotkun

Hvað getur leitt til sjálfsskaða?

Vissir þættir geta aukið líkurnar á því að fólk leiðist út í sjálfsskaða, til dæmis:

 • Vanræksla og að vera yfirgefin í æsku
 • Einelti í og utan skóla
 • Skortur á getu til að leysa vandamál
 • Óeðlilegt/brotið fjölskyldulíf
 • Misnotkun áfengis og fíkniefna hjá foreldrum
 • Streita og þunglyndi

 • Misnotkun og áföll í æsku

Hvað get ég gert til þess að hjálpa?

Að komast að því að einhver sem þú þekkir sé að skaða sig getur verið erfitt. Margir skilja ekki af hverju einhver myndi vilja skaða sjálfan sig. Það er erfitt að taka því ekki persónulega og vilja sannfæra hann eða hana um að hætta.

Hér eru nokkur ráð til þess að hjálpa þeim sem skaða sig:

FÁÐU HJÁLP FRÁ FAGAÐILA

– Sjálfsskaði er flókin hegðun sem stendur oft yfir í langan tíma. Það er mikilvægt að fá stuðning og ráðgjöf frá fagaðila.

EKKI TAKA ÞVÍ PERSÓNULEGA

– Þegar fólk skaðar sig, þá er það ekki að því til þess að láta þér líða illa. Jafnvel þegar þú upplifir að það sé að þessu til þess að reyna að stjórna þér, þá er það líklegast ekki ástæðan fyrir sjálfsskaðanum.

BÚÐU TIL ÁÆTLUN

– Ef mögulegt er, sestu þá niður með viðkomandi og búðu til áætlun um hvað hann/hún geti gert ef hann/hún finnur fyrir þörfinni til þess að skaða sig eða er búin/n að skaða sig. Þetta getur aukið öryggistilfinningu ykkar beggja og minnkað leyndina í kringum sjálfsskaðann. Þá finnur viðkomandi einnig að hann getur leitað til þín með stuðning. Ef þú ert í efa um hvað eða hvernig eigi að gera þetta, talaðu þá við fagaðila.

SÝNDU STUÐNING OG RÓ

– Fólk bregst oft harkalega við sjálfsskaða og fer í mikið uppnám, reiðist eða hvort tveggja. Þetta getur gert aðstæðurnar verri þar sem viðkomandi er nú þegar í vandræðum með að takast á við eigin tilfinningar. Þetta getur leitt til þess að leyndin í kringum sjálfsskaða eykst af ótta við viðbrögð þín. Spyrðu, á rólegan hátt, hvort viðkomandi vilji tala um þetta, þá er hann eða hún við stjórnvölinn. Þú getur átt frumkvæðið en ekki þrýsta um of. Að sýna stuðning er ekki það sama og að samþykkja sjálfsskaða, heldur ertu að gefa þau skilaboð að þú viljir vera til staðar og hjálpa. Þú gætir til að mynda byrjað á að segja: ,,Fólk skaðar sig þegar því líður illa. Viltu tala við mig um það?”

EKKI SEGJA ÞEIM AÐ HÆTTA ÞESSU 

– Eðlileg viðbrögð við sjálfsskaða er að segja viðkomandi að hætta þessu eða að segja að þetta láti þér líða illa. Þetta leiðir oft til sektarkenndar og getur leitt til þess að viðkomandi fer að fela sjálfsskaðann enn meira til þess að þér líði ekki illa.

HUGSAÐU UM ÞIG

– Þetta er mjög erfitt! Þú munt þurfa tíma til þess að aðlagast tilhugsuninni um að einhver sem þér þykir vænt um skaði sjálfan sig. Sjáðu til þess að þú hugsir um þínar þarfir ásamt þörfum þess sem skaðar sig. Því betur sem þér líður, og því betur sem þú getur slappað af, því auðveldara verður það að takast á við sjálfsskaðann.

ÁTTAÐU ÞIG Á EIGIN TAKMÖRKUNUM

– Flestir eru komnir býsna langt út fyrir þægindarammann þegar kemur að sjálfsskaða. Það er í lagi ef þér finnst þetta óþægilegt og það er í lagi ef þér finnst þú ekki geta talað um þetta. Segðu viðkomandi frá því og leitið í sameiningu eftir stuðningi fagaðila, hvort sem það eru sálfræðingar, geðlæknar eða ráðgjafar (sjáið líka síðuna ,,Hvert get ég leitað?”)

REYNDU AÐ SKILJA AF HVERJU EINSTAKLINGURINN SKAÐAR SIG

– Mörgum hryllir við tilhugsuninni um að einhver sem þeir þekki og þyki jafnvel vænt um skaði sig. Reyndu að skilja hvað leiddi til sjálfsskaðans og hvernig þú getur hjálpað við að finna aðrar leiðir til þess að takast á við vandamálið.

Hvert get ég leitað?

Af hverju fremur fólk sjálfsvíg?

Þegar einhver fremur eða gerir tilraun til að fremja sjálfsvíg er manneskjan að reyna að stöðva óbærilegan tilfinningalegan sársauka. Manneskjan er í svo mikilli angist og aðstæðurnar virðast svo yfirþyrmandi að hún sér enga aðra leið.
Sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir eru líklegri hjá þeim sem glíma við eitt eða fleira af eftirfarandi:

 • Geðhvarfasýki
 • Jaðarpersónuleikaröskun
 • Þunglyndi
 • Misnotkun áfengis eða fíkniefna
 • Áfallastreituröskun
 • Geðklofa.
 • Yfirþyrmandi streituvaldandi aðstæður eða atburði, t.a.m. fjárhagsvanda, samskipavanda í nánum samböndum, ástarsorg, atvinnumissi, dauðsfall náins ættingja eða vinar

Þeir sem reyna að taka sitt eigið líf eru oft að reyna að komast út úr aðstæðum sem þeim virðist ómögulegt að takast á við. Margir eru að reyna að losna undan:

 • Skömm, sektarkennd eða finnast þeir vera byrði á öðrum
 • Höfnun, missi eða einmanaleika
 • Því að þeim finnst þeir vera fórnarlömb

Flestar sjálfsvígstilraunir enda ekki með sjálfsvígi. Margar tilraunir eru gerðar þannig að björgun er möguleg. Sumir gera sjálfsvígstilraunir þannig að ólíklegra sé að þær séu banvænar eins og með eitrunum eða ofskammti lyfja. Karlmenn eru líklegri til þess að velja beinskeyttari aðferðir, til dæmis að skjóta sig. Þar af leiðandi eru sjálfsvígstilraunir karla líklegri heldur en sjálfsvígstilraunir kvenna til þess að enda með dauða.
Ættingjar þeirra sem reyna eða fremja sjálfsvíg kenna sér oft um eða verða mjög reiðir. Sumir líta á sjálfsvíg sem mjög eigingjarnt athæfi. Á hinn bóginn halda þeir sem gera sjálfsvígstilraunir oft að þeir séu að gera vinum og fjölskyldu sinni greiða með því að taka eigið líf sem er auðvitað ekki rétt.

Hverjir eru áhættuþættirnir?

Sjálfsvígstilraunir eiga sér oft stað þegar einstaklingur upplifir aðstæður eða atburði sem þeir telja sig ekki geta ráðið við og eru yfirþyrmandi, til dæmis:

 • Að eldast, missa heilsuna og sjálfstæði sitt
 • Dauða ástvinar
 • Alvarleg veikindi
 • Tilfinningaleg áföll
 • Misnotkun áfengis eða fíkniefna
 • Atvinnuleysi eða fjárhagserfiðleika

Áhættuþættir ungmenna eru meðal annars:

 • Fjölskyldumeðlimur og/eða vinur sem hefur framið sjálfsvíg
 • Vanræksla og/eða misnotkun í uppeldi
 • Heimilisofbeldi
 • Falla snemma út úr skóla
 • Einelti
 • Félagsleg einangrun
 • Aðgengi að skotvopnum
 • Sjálfsskaði
 • Sambandsslit/ástarsorg

Hver eru hættumerkin?

Oft, en alls ekki alltaf, sýnir sá eða sú sem reynir sjálfsvíg merki um sjálfsvígshugsanir áður en sjálfsvígstilraunin er gerð. Eftirfarandi getur átt við viðkomandi einstakling:

 • Á erfitt með að einbeita sér eða að hugsa skýrt.
 • Gefur eigur sínar.
 • Talar um að fara í burtu eða að hann þurfi að ganga frá sínum málum.
 • Breytir skyndilega um hegðun, verður rólegur eftir að hafa verið mjög kvíðinn eða stressaður.
 • Fyllist áhugaleysi á því sem áður veitti honum ánægju.
 • Sýnir sjálfseyðandi hegðun, eins og mikla áfengisneyslu, eiturlyfjanotkun eða sjálfsskaða.
 • Dregur sig frá vinum eða vill ekki fara út.
 • Á skyndilega í erfiðleikum í skóla eða í vinnu.
 • Talar um dauðann, sjálfsvíg eða að hann/hún vilji skaða sig.
 • Talar um vonleysi eða sektarkennd.
 • Breytir svefn- eða matarvenjum.
 • Skipuleggur leiðir til þess að taka eigið líf.

Hvað get ég gert til þess að hjálpa?

Ef einhver segir þér frá sjálfsvígshugsunum er fyrsta skrefið að hlusta. Þetta getur valdið hræðslu en þolinmóður, skilningsríkur hlustandi sem dæmir ekki getur verið ómetanleg hjálp. Sýndu sársaukanum og vanlíðaninni skilning og samþykki. Þannig sýnir þú upplifun þeirra og tilfinningum skilning án þess að samþykkja sjálfsvíg sem lausn.
Næsta skref er að leita hjálpar. Reyndu að finna, í samvinnu við einstaklinginn, þá hjálp sem hann þarf. Ráðlegðu viðkomandi að hringja í Hjálparsímann (1717), nýta netspjallið www.1717.is og/eða bjóddu honum að bóka tíma hjá sálfræðingi, geðlækni eða öðrum fagaðila. Ef einstaklingurinn er í bráðri hættu fylgdu honum þá samstundis á bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans eða hringdu í neyðarlínuna 112.

Ef einhver, sem þú hefur áhyggjur af, sýnir einhver af hættumerkjunum og þú hefur áhyggjur af því að hann eða hún sé í sjálfsvígshættu en viðkomandi hefur ekki sagt þér frá því, spurðu þá. Spurðu hreint út en án þess að vera ásakandi eða dæmandi. Sumir eru hræddir við að ræða um sjálfsvíg eða sjálfsvígshugsanir af ótta við að það komi hugmyndum að hjá einstaklingnum. Það er hins vegar ekkert sem styður það að umræða um sjálfsvíg auki líkur á sjálfsvígum. Þvert á móti getur það að tala opinskátt um sjálfsvíg, hlusta og sýna stuðning verið verndandi þáttur gegn sjálfsvígi fyrir þá sem upplifa sjálfsvígshugsanir.

Ekki reyna að rífast eða rökræða við einstakling sem er með sjálfsvígshugsanir. Þeim finnst þeir oft vera einangraðir, einmana og/eða misskildir. Að rífast, skamma þá eða reiðast þeim styður aðeins þá upplifun þeirra. Sýndu skilning, stuðning og samúð, það er besta gjöfin sem þú getur veitt þeim og gæti bjargað lífi.

Hvert get ég leitað?

SjálfsvígSjálfsskaði
1717 ókeypis + trúnaður + alltaf opið