#utmeda
#utmeda

Ástarsorg

Ef þú hefur upplifað sambandsslit en átt góða fjölskyldu eða vini skaltu ekki hika við að segja þeim frá líðan þinni og deila með þeim þinni upplifun. Flestir finna fyrir létti við að tala um tilfinningar sínar við aðra.

Hugsanlega hefur einhver í fjölskyldu- eða vinahópi þínum orðið fyrir svipaðri reynslu og getur gefið þér góð ráð. Ef þú getur ekki treyst á aðstoð í fjölskyldunni eða vinahópnum er hægt er að leita ráða í gegnum Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og á vefspjallinu www.1717.is í fullum trúnaði þar sem þjálfaðir sjálfboðaliðar eru á vaktinni allan sólarhringinn.

Ef líðan þín batnar ekki getur þú haft samband við næstu heilsugæslu sem getur þá vísað þér áfram á fagaðila.

Nám - vinna

Ef þú hefur áhyggjur af námi skaltu snúa þér til námsráðgjafa í skólanum þínum. Námsráðgjafinn getur aðstoðað þig við að endurskipuleggja námið og/eða hjálpað þér að ná takmarki þínu innan og utan skólans. Hægt er að komast í samband við sálfræðing í gegnum marga grunnskóla.

Ef þér líður illa í vinnunni skalt snúa þér til viðkomandi mannauðsstjóra/starfsmannastjóra eða trúnaðarmanns á þínum vinnustað. Ef hvorugur er fyrir hendi skaltu leita til heimilislæknis og/eða næstu heilsugæslu. Þá er hægt að leita aðstoðar í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og í gegnum netspjall www.1717.is allan sólarhringinn og talað við þjálfaða sjálfboðaliða.

Hægt er að panta fría ráðgjöf vegna geðrænna erfiðleika hjá Geðhjálp í gegnum netfangið gedhjalp@gedhjalp.is og símanúmerið 570 1700 og/eða hafa samband við Fjölskyldumiðstöð Rauða krossins í síma 511 1599.

Peningaáhyggjur

Ef þú hefur peningaáhyggjur en átt góða fjölskyldu eða vini skaltu ekki hika við að segja þeim frá vandræðum þínum. Hugsanlega getur einhver í fjölskyldunni eða vinahópnum gefið þér góð ráð og jafnvel hjálpað þér að endurskipuleggja fjármálin.

Ef þú getur ekki treyst því að fá aðstoð í nærumhverfinu getur þú pantað fría ráðgjöf um hvert sé best að leita hjá Geðhjálp í gegnum netfangið gedhjalp@gedhjalp.is og símanúmerið 570 1700 .

Einnig getur þú haft samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og í gegnum vefspjallið www.1717.is til að fá aðstoð og upplýsingar um einstök úrræði.

Geðrænn vandi

Ef þú ert dapur eða stríðir við geðrænan vanda en átt góða fjölskyldu eða vini skaltu ekki hika við að segja þeim frá líðan þinni. Flestir finna fyrir létti við að tala um tilfinningar sínar við aðra. Ef vandinn er djúpstæðari en svo að hægt sé að leysa hann með þessum hætti skaltu leita til heimilislæknisins þíns og/eða næstu heilsugæslu.

Hægt er að leita aðstoðar í gegnum netspjall www.1717.is og Hjálparsíma Rauða krossins 1717 allan sólarhringinn og í fullum trúnaði þar sem reyndir sjálfboðaliðar veita sálrænan stuðning, hlustun og upplýsingar um úrræði í samfélaginu. Þá er hægt að panta fría ráðgjöf vegna kvíða, þunglyndis og annarra geðrænna erfiðleika hjá Geðhjálp í gegnum netfangið gedhjalp@gedhjalp.is og símanúmerið 570 1700 .

Einnig er hægt að leita til úrræða á höfuðborgarsvæðinu eins og Klúbbsins Geysis, Hugarafls og Hlutverkaseturs. Á landsbyggðinni er hægt að leita til geðverndarmiðstöðvarinnar Grófarinnar á Akureyri, Vesturafls á Ísafirði, Ásheima á Egilsstöðum og fleiri sambærilegra aðila. Hægt er að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga t.a.m. í gegnum www.salfelag.is.

Einnig er hægt að leita til geðlækna og annarra fagaðila.

Einmanaleiki

Ef þú upplifir einmanaleika en átt góða fjölskyldu eða vini skaltu ekki hika við að segja þeim frá líðan þinni. Fjölskylda og vinir eru yfirleitt reiðubúnir að koma til aðstoðar þegar athygli þeirra er vakin á vandanum.

Ef þú getur ekki treyst á aðstoð í nærumhverfinu getur þú fengið aðstoð í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og á netspjallinu www.1717.is allan sólarhringinn.

Þá er hægt að panta ráðgjöf hjá Geðhjálp í gegnum netfangið gedhjalp@gedhjalp.is og símanúmerið 570 1700 .

Einnig er hægt að leita til annarra félagasamtaka á borð við Hlutverkaseturs og Handarinnar.

Kynferðisleg misnotkun

Ef þú hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun og býrð á höfuðborgarsvæðinu getur þú leitað þér aðstoðar hjá Stígamótum eða Drekaslóð. Stígamót bjóða líka upp á viðtöl á Patreksfirði og á Egilsstöðum. Á Ísafirði má leita til Sólstafa og á Akureyri til Aflsins.

Vímuefnavandi

Ef þú stríðir við áfengis- eða vímuefnavanda getur þú fengið fría ráðgjöf hjá SÁÁ. Einnig getur þú leitað til tólf spora samtaka eins og AA og NA samtakanna www.nai.is.

Sálfræðinga með menntun á sviði áfengis og vímuefnamála má finna á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands www.salfelag.is. Hægt er að leita aðstoðar allan sólarhringinn í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og í gegnum netspjallið www.1717.is

Bráðavandi

Ef þú átt við bráðan geðrænan vanda að stríða skaltu snúa þér til heimilislæknisins þíns og/eða næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku sjúkrahúss í þínu byggðarlagi.

Ef þú býrð á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni við höfuðborgar
svæðið getur þú snúið þér til bráðamóttöku geðsviðs Landspítala í geðdeildarbyggingu sjúkrahússins við Hringbraut (s. 543 4050).

Bráðamóttakan er opin frá kl. 12 til kl. 19 alla virka daga og frá kl. 13 til kl. 17 á helgidögum. Utan opnunartíma er hægt að leita til bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.

Minnt er á að hægt er að leita aðstoðar í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og í gegnum netspjall allan sólarhringinn, nafnlaust og ókeypis.

Aðstandendur

Ef þú hefur áhyggjur af því að einhver í fjölskyldu þinni eða vinahópi sé í sjálfsvígshættu getur þú leitað ráða á næstu heilsugæslustöð.

Hægt er að fá ráð í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og gegnum netspjall 1717.is allan sólarhringinn.

Þá er hægt að fá fría ráðgjöf hjá Geðhjálp í gegnum netfangið gedhjalp@gedhjalp.is og símanúmerið 570 1700 .

Hægt er að hafa samband við geðsvið Landspítalans í gegnum símanúmerið 543 4050.

Vísbendingar um sjálfshættu

Stundum er hægt að greina vísbendingar um sjálfsvígshættu hjá ungu fólki. Meðal þeirra eru:

  • Félagsleg einangrun, depurð, óyndi, þunglyndi.
  • Missir t.d. vinaslit, slit á ástarsambandi, brottfall úr skóla/vinnu.
  • Vímuefnanotkun, vaxandi hömluleysi.
  • Óöryggi með kynvitund/kynhneigð
  • Dómur vegna afbrota.
  • Mikill áhugi á dauðanum.
  • Tilhneiging til að gefa frá sér eigur sínar.
  • Hótanir um sjálfsvíg.